Tekjur viðburðatækjaleigunnar Exton ehf. drógust saman um 51% á síðasta ári og námu alls 429 milljónum króna samanborið við 874 milljónir árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár.

Tap félagsins á árinu nam 72 milljónum króna og jókst um 32 milljónir frá árinu áður, úr 40 milljónum.

Eignir félagsins námu rúmlega 619 milljónum króna, þar af var eigið fé 105 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins var því um 17% í fyrra en það var tæplega 25% árið áður. Handbært fé jókst um rúmlega 8 milljónir króna á árinu og nam tæpum 9 milljónum í árslok, úr 211 þúsund krónum árið áður.

Meðalfjöldi starfsmanna lækkaði um 45% á tímabilinu og voru þeir 18 í árslok, miðað við 33 árið áður. Launatengd gjöld lækkuðu í beinu samræmi við færri starfsmenn og námu 178 milljónum króna sem er um 45% lækkun.

Áhrif COVID-10 hafði umtalsverð áhrif á rekstur fyrirtækisins. Um helmingur tekna félagsins kemur frá þjónustu við tónleika, skemmtanir og sams konar viðburði sem var að mestu leyti slaufað á síðasta ári vegna samkomutakmarka.

Malbritt Sundby er stærsti eigandi félagsins með 28,8% hlut. Ríkharð Sigurðsson og Sigurjón Sigurðsson eiga sitthvorn 25,5% hlutinn en Ríkharð er jafnframt framkvæmdastjóri Exton.