Gert er ráð fyrir að hátt í 50 þúsund manns fái greiddar atvinnuleysisbætur að fullu eða hluta í apríl. Yfir 30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Þá eru um 16 þúsund þegar á hinni hefðbundnu atvinnuleysisskrá. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að skráð atvinnuleysi fari upp í 15-16% í mars samkvæmt umfjöllun mbl.is . Mestur fjölgun atvinnulausra kemur úr greinum tengdri ferðaþjónustunni.

Alls eru um 200 þúsund starfandi á íslenskum vinnumarkaði og því má áætla að hátt í fjórðungur vinnumarkaðarins þiggi bætur í gegnum Vinnumálastofnun.

Í samantekt ASÍ á hlutastarfaleiðinni segir að yfir 12 þúsund starfsmenn í ferðaþjónustu hafa sótt um bætur. Úr verslun og vöruflutningum hafa yfir 6 þúsund umsóknir hafa borist.

Dreifing umsækjenda milli landshluta sé að mestu í samræmi við dreifingu starfandi fólks í landinu. Fjöldi umsækjenda sé þó hlutfallslega hærri á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Þannig hafa 11% umsókna borist frá íbúum Suðurnesja, þar sem 8% starfandi landsmanna bjuggu á síðasta ári og 67% umsókna af höfuðborgarsvæðinu, þar sem 64% starfandi landsmanna bjuggu.

55% umsækjenda eru karlmenn en 45% konur. Til samanburðar voru karlar 53% starfandi landsmanna í fyrra en konur 47%, samkvæmt tölum frá Hagstofu.

Ríflega þrír af hverjum fjórum umsækjendum eru íslenskir ríkisborgarar, en um 14% eru Pólverjar og 10% borgarar annarra ríkja. Í fyrra voru um 80% starfandi fólks hérlendis Íslendingar en 20% útlendingar. Endurspegla umsóknir um hlutabætur því betur samsetningu vinnumarkaðarins en umsóknir um atvinnuleysisbætur síðasta árið, þar sem hlutfall Íslendinga meðal umsækjenda hefur verið 63%.

Sé litið til aldursskiptingar, eru umsóknir hlutfallslega flestar í aldurshópnum 30-39 ára. Alls eru 26% umsækjenda á þeim aldri, samanborið við 21,6% af starfandi fólki. Lægst er hlutfallið meðal fólks á aldrinum 60-69 ára, en 9% umsækjenda eru á þeim aldri samanborið við 11,7% af starfandi fólki.