Félagið Jeppavinir hefur fallist á að greiða stjórnvaldssekt upp á 150 þúsund krónur og hver aðili Jeppavina 50 þúsund
krónur í sátt við Samkeppniseftirlitið vegna samráðs þessara aðila. Í ákvörðun eftirlitsins kemur fram að gögn málsins sýni svo ekki verði um villst fram á samfellt samráð aðila málsins.

Þá segir að fyrir liggi að á vettvangi félagsins voru umræður um það hvernig best væri að útfæra gjaldskrár fyrir akstur í jeppaferðum og hvert gjald fyrir þær skyldi vera að lágmarki. Þá var rætt um hækkanir, t.a.m. um áramót og við verðhækkanir á olíu. Þær gjaldskrár sem aðilar náðu sáttum um voru birtar félagsmönnum með því að senda þær á póstlista félagsmanna og þær ræddar á fundum félagsmanna að auki.