Um 50 þúsund Danir eru í fjötrum að sögn fréttavefjarins business.dk.

Ekki þó í eiginlegri merkingu heldur hefur vefurinn heimild fyrir að svo mörgum Dönum sé nánast ófrjálst að skipta um störf í sínum geira þar eð vinnuveitendur þeirra hafi gert leynileg samkomulög við samkeppnisaðila í því skyni að koma í veg fyrir gagnkvæman „þjófnað” á dýrmætum starfsmönnum.

Á meðal þeirra sem nefndir eru í fréttinni má nefna starfsmenn í upplýsingatæknigreinum, iðnaðarmenn og félags- og heilbrigðisstarfsmenn. Jafnan er starfsmönnunum ókunnugt um samkomulag það sem vinnuveitandi þeirra hefur gert.

Sótti oft um en var alltaf hafnað

Business.dk vitnar í frétt Nyhedsavisen, þar sem fjallað er um prófmál fagsambands starfsfólks í upplýsingatæknigeiranum, PROSA, fyrir hönd fyrrum starfsmanns IBM í Danmörku.

Starfsmaðurinn hafði án árangurs sótt um ýmis störf á sínu sviði um nokkurra ára skeið en komst að því að lokum að fyrirtækið hafði gert leynilegt samkomulag við samkeppnisaðila um að ráða hann ekki. Ýmsir danskir þingmenn eru fylgjandi lagasetningu sem heimilar í raun fyrirtækjum, sem samið hafa um þessa hluti sín á milli, að víkja frá þeim án þess að sæta afleiðingum.

En tapi PROSA máli sínu hefur Claus Hjort Frederiksen, atvinnumálaráðherra Danmerkur, heitið því að binda enda á slík samkomulög með lagasetningu að sögn blaðsins.