Þingvallanefnd ætlar að taka upp bílastæðagjald. Gjaldið verður 500 krónur á fólksbíl, 750 krónur á jeppa og hópferðabíla fyrir 8 farþega, 1500 krónur fyrir 9 til 14 manna bíla og 3000 krónur fyrir 15 farþega eða fleiri. Gjaldið veitir heimild til að leggja í einn sólarhring og verður innheimt á Hakinu, á Þingplani neðan Almannagjár og á gamla Valhallarreitnum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Enn er óljóst hvenær gjaldtaka hefst. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður segir í samtali við Fréttablaðið segir gjaldmæla hafa verið pantaða en að það taki minnst fjórar til sex vikur að fá þá afhenta. Um 50 milljónir fara á hverju ári í rekstur og viðhald bílastæða á Þingvöllum, vonast er til að nýja gjaldið skili 40 til 50 milljónum. Ennþá verður þó hægt að leggja á ýmsum öðrum stöðum í þjóðgarðinum gjaldfrjálst.