Íslenska tölvufyrirtækið CCP mun standa fyrir samkomunni Fanfest á Nordica hóteli 10.-11. nóvember í samvinnu við Icelandair. Samkoman er haldin í þriðja sinn en Fanfest sameinar fólk allstaðar að úr heiminum, sem á það sameiginlegt að spila tölvuleikinn Eve Online sem CCP framleiðir. Að sögn Magnúsar Bergssonar, kynningarstjóra CCP, stefnir allt í að Fanfest verði stærra í ár en nokkur sinni fyrr og býst hann við að 500 manns frá allt að 15 mismunandi löndum sæki uppákomuna í ár samanborið við 400 manns í fyrra.

Af þeim fjölda sem sækir ráðstefnuna eru um það bil 80% gesta sem koma erlendis frá í þeim gagngera tilgangi að sækja Fanfest. "Þetta verður alltaf stærra í sniðum með hverju árinu en takmarkið er að hérna komi saman þúsund mans á Fanfest innan nokkura ára" segir Magnús. Í ljósi þess hversu ört vinsældir Eve Online vaxa er það alls ekki langsótt markmið. Að sögn Magnúsar spila nú um 300 þúsund manns leikinn víða um heim. Þar af eru 150 þúsund fastir áskrifendur á Evrópumarkaði leiksins en að sögn Magnúsar er stefnt að því að tvöfalda þann fjölda á næstu árum. "Eve Online er fimmti stærsti tölvuleikurinn sem spilaður er á veraldarvefnum í dag. Þess verður ekki langt að bíða að við tökum fram úr velflestum keppinnautum okkar," segir Magnús. Hann tekur fram að Eve Online sé stærsti tölvuleikurinn í heiminum þar sem allir notendur spila í sama tölvuheiminum. Aðrir leikir skipta notendum niður í margar smærri veraldir. Að þessu leyti er Eve Online er einstakur, og langstærsti tölvuraunveruleikinn í heiminum í dag.

Aðspurður um markmið stórrar ráðstefnu á borð við Fanfest segir Magnús að tilgangurinn sé í raun einfaldlega að hafa gaman af og skapa vettgang fyrir notendur leiksins til að hittast. "Þetta er í raun árshátíð leiksins þar sem fólk sem þekkist í Eve Online heiminum getur kynnst og átt samskipti. "Það er hollt fyrir spilarana að hittast innbyrðis og gott fyrir okkur að hitta þetta fólk augliti til auglitis og gefa því innsýn í það sem við erum að gera" segir Magnús.

"Auk spilara og áhugamanna mun fjöldi fjölmiðlamanna koma á Fanfest og stórir aðilar úr bransanum sem við höfum áhuga á að eiga samskipti við. Á Fanfest notum við tækifærið og kynnum nýja hluti og vörur samhliða því að senda út nokkrar stórar tilkynningar. Hápunktur dagskrárinnar eru þó útsláttarkeppnir í bæði EVE Online leiknum og nýrri kortaspila-útgáfu af leiknum. En í kortaspila-útgáfunni safna leikendur Eve spilum í spilastokk sem er síðan notaður til að sigra óvininn. "En markmiðið er fyrst og fremst að hafa gaman af, " segir Magnús.