Vífilfell hefur fjárfest fyrir 500 milljón króna í nýjum pökkunarvélum. Vélarnar voru formlega vígðar í gær af Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Carlos Cruz, forstjóra Vífilfells. Verkefnið er stærsta fjárfestingarverkefni Vífilfells á síðustu fimm árum

Vélarnar eru tvær Tetra Pak hátæknivélasamstæður sem verða í verksmiðju Vífilfells á Stuðlahálsi. Markmið eigenda fyrirtækisins er að verksmiðjan hér verði nægilega tæknileg og afkastamikil að hægt verði að sækja á erlenda markaði með íslensk vörumerki eins og Trópí, Svala og Hámark. Hlutfall erlendra tekna tekna vegna útflutnings hefur vaxið hratt síðustu ár, aðallega á bjór sem bruggaður er á Akureyri.

Carlos Cruz, forstjóri Vífilfells, sagði við vígsluathöfnina í gær að nýju vélarnar gefi fyrirtækinu möguleika á aukinni vöruþróun ásamt möguleika á útflutningi.

„Þær bjóða upp á mun betri og stöðugri gæði en áður og lengri líftíma á vörunum. Þannig að hver veit nema að við verðum farin að flytja út fleiri vörutegundir, til viðbótar við bjór, áður en langt um líður. Þá njóta íslenskir neytendur betri gæða framleiðslunnar. Þessi fjárfesting líka til merkis um að eigendum Vífilfells er full alvara með að framleiða áfram á Íslandi. Við teljum skilyrði hér jákvæð og erum ánægð með að höftin séu að losna.“