Landið Útey I í Bláskógabyggð, sem er um það bil 320 hektarar, er til sölu. Að sögn Helga Jóns Harðarsonar, sölustjóra fasteignasölunnar Hraunhamars sem að sér um söluna, er ásett verð á jörðina 500 milljónir króna, en óskað er eftir tilboðum í jörðina.

Jörðinni fylgir veiðiréttur í Hólaá sem hefur verið talsvert vinsæl meðal stangveiðimanna. Landinu fylgir jafnframt veiðiréttur í Laugarvatni og Apavatni. Veiði í net á síðastliðnum árum í ánum hefur verið 5 til 10 tonn. Einnig fylgir jörðinni gjöfull jarðhitaréttur og kemur neysluvatn í eigu seljanda.

Skiptist jörðin bæði í valllendi og mýrlendi og á landinu eru um það bil 35 hektara tún. Einbýlishúsið og útihús eru á jörðinni. „Jörðin er tilvalin fyrir ferðaþjónustu eða hótel og er staðsett við Gullna hringinn, rétt hjá Gullfossi, Geysi og Þingvöllum,“ segir Helgi Jón Harðarson. „Þetta er náttúruperla á Suðurlandi og er um 80 kílómetra frá Reykjavík.

Þarna hefur verið verkað mjög þekktur silungur sem er kenndur við Útey. En reksturinn sjálfur er ekki til sölu. Þetta er einstök staðsetning,“ bætir hann við að lokum.