Mennta- og menningarmálaráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins afhentu fyrstu Microbit smátölvurnar til um 100 nemenda í 6. bekk Austurbæjarskóla og Hólabrekkuskóla fyrr í dag en tölvurnar eru notaðar til að kenna krökkum að forrita.

Athöfnin fór fram í stúdíói A hjá RÚV í Efstaleiti. Þetta er annað árið sem Microbit smátölvunum er dreift til nemenda og að þessu sinni fá allir 6. bekkingar í grunnskólum landsins tölvur eða hátt í 5.000 nemendur.

Microbit er verkefni sem hleypt var af stokkunum haustið 2016. Markmið verkefnisins er að efla þekkingu og áhuga ungs fólks á Íslandi á forritun og tækni, enda ljóst að á næstu árum verður þekking á forritun og tækni forsenda flestra starfa hér á landi eins og annars staðar. Í tengslum við verkefnið verður áfram efnt til forritunarleikanna, Kóðinn 1.0, þar sem nemendur geta glímt við vikulegar áskoranir, sent inn lausnir og sótt fræðsluefni.

Haft er eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta- og menningarmálaráðherra, í fréttatilkynningu að samstarfsverkefnið um forritunarkennslan sé mikilvægt innlegg í þróun grunnskólanáms. „Það má vel setja mikilvægi forritunarfærni í samhengi við annað tungumálanám og segja að allir þurfi að kunna þrjú tungumál; móðurmálið, eitt erlent tungumál og síðan forritunarmál.“

Þá segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, jafnframt að dreifingin á Microbit smátölvunni hafi farið fram úr björtustu vonum. „Það er verið að mennta starfsmenn framtíðarinnar í dag og fjórða iðnbyltingin mun hafa mikil áhrif á störf okkar á komandi árum. Við náðum í fyrra til 97% barna í 6. og 7. bekk og voru því afhentar hátt í 10 þúsund smátölvur. Það er von okkar að áhuginn verði síst minni núna enda sýna viðtökurnar að nemendur eru tilbúnir að takast á við tæknileg viðfangsefni eins og forritun.“