Alls hefur hátt í 5.000 manns verið sagt upp á árinu 2008 með hópuppsögnum. Stærstur hluti uppsagnanna barst í lok október eða tæp 60%, en 11% uppsagnanna barst í nóvembermánuði.

Í nóvembermánuði bárust Vinnumálastofnun 12 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem sagt var upp samtals um 560 manns.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.

Þar kemur fram að um 43% tilkynninganna komu úr verslun, flutningum og tengdum greinum. Um 33% voru vegna starfsmanna í mannvirkjagerð og tengdum iðnaði og um fjórðungur úr sérfræðilegri þjónustu og upplýsinga- og útgáfustarfsemi.

Þá er um 83% uppsagnanna vegna starfsfólks á höfuðborgarsvæðinu en aðrar uppsagnir skiptast á Vesturland og Suðurland.

Heildarfjöldi starfsmanna þeirra fyrirtækja sem tilkynntu uppsagnir er ríflega 2.400 manns, og því eru þessi fyrirtæki sem um ræðir að segja upp um 23% starfsmanna sinna að jafnaði og er uppsagnahlutfallið hæst í mannvirkjagerð eða yfir 80%, en 15-30% í öðrum greinum.

Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að uppsagnirnar koma til framkvæmda allt upp í 6 mánuði.

„Upplýsingar um hvenær nákvæmlega einstakar uppsagnir koma til framkvæmda eru fremur óljósar, en þó má segja að á tímabilinu 1-3 mánuðir sé algengast,“ segir á vef stofnunarinnar.

Töluvert var um lausráðið fólk sem verður fyrir uppsögnum að þessu sinni og því kemur um helmingur uppsagnanna til framkvæmda um áramótin og svo um mánaðarmótin jan./feb. og feb./mars.

„Helstu ástæður uppsagna eru rekstrarerfiðleikar, fyrirsjáanlegur samdráttur verkefna eða verkefnaskortur, og endurskipulagning,“ segir á vef Vinnumálastofunar.

Þúsund uppsagna koma til framkvæmda um þessi mánaðarmót

Eins og fyrr segir hefur um 5.000 manns verið sagt upp á árinu með hópuppsögnum.

Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að um 1.000 þessara uppsagna eru að koma til framkvæmda núna um þessi mánaðarmót og yfir 1.000 hafa þegar komið til framkvæmda.

Samkvæmt tilkynntum hópuppsögnum missa um 1.000 manns vinnuna um áramót og annar eins hópur um mánðarmótin jan./feb.

Milli 600 og 700 koma til framkvæmda næstu þrenn mánaðarmót þar á eftir, mest um mánarmótin febrúar/mars.

Mest hefur verið um hópuppsagnir í mannvirkjagerð á árinu 2008, eða yfir 40% allra uppsagna og þvínæst í verslun og fjármálastarfsemi og svo flutningastarfsemi.

Sjá nánar í skýrlsu Vinnumálastofnunar. (pdf skjal)