Samkvæmt dönskum athugunum flytjast um 5.000 störf úr landi árlega til landa þar sem laun eru lægr. Samkvæmt greinargerð Verslunarráðs vegna Viðskiptaþings munu Íslendingar ekki hafa farið varhluta af þessari þróun en flutningur starfa til lands eins og Indlands og Kína hefur breytt miklu í atvinnulífi Vesturlanda.

Margvíslegur iðnaður hefur færst til Eystrasaltsríkjanna og jafnvel störf í fiskvinnslu hafa flust til Kína þar sem tímakaup samsvarar 50 - 60 krónum. Íslenskt viðskiptalíf mun ekki geta keppt við þróunarlönd í launum. "Það hefur hins vegar aldrei verið brýnna að skoða hvaða þætti í íslensku rekstrar- og efnahagsumhverfi megi styrkja til að bæta samkeppnisumhverfi Íslands og þeirra fyrirtækja sem hér starfa ," segir í greinargerð Verslunarráðs.

Þar segir einnig að til að ná raunverulegum árangri í samkeppni um erlendar fjárfestingar er brýnt að íslensk stjórnvöld setji sér skýr markmið um erlendar fjárfestingar, en einu sjáanlegu markmið íslenskra stjórnvalda varðandi erlenda fjárfesta virðast fyrst og fremst lúta að stóriðju. Ef íslensk stjórnvöld setja sér víðtækari markmið þá er skilaboðum komið á framfæri með beinum hætti við erlenda fjárfesta innan þeirra markhópa sem skipta máli.