Um 50.000 manns eru nú á leigumarkaði og hefur fjölgað um 10.000 síðan árið 2011 að því er kemur fram í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs um leigumarkaðinn.

Í skýrslunni kemur fram að fleiri telji sig búa við húsnæðisöryggi en fyrir ári síðan. Árið 2018 töldu 57% þeirra sem voru á leigumarkaði sig búa við húsnæðisöryggi samanborið við 45% árið 2017. Tölurnar breytast þó lítið meðal þeirra sem búa í foreldrahúsum eða eigin húsnæði. Árið 2018 töldu 66% þeirra sem búa í foreldrahúsum hafa húsnæðisöryggi og 94% þeirra sem búa í eigin húsnæði.

Þá telja 92% þjóðarinnar að óhagstætt sé að leigja miðað við niðurstöður könnunar Zenter fyrir íbúðalánasjóð.

Ennfremur er töluverður munur á fjárhagsstöðu heimila eftir búsetuformi miðað við fyrrgreind könnun. Aðeins 44% þeirra sem búa á leigumarkaði segjast geta safnað talsverðu eða svolitlu sparifé en 42% fólks á leigumarkaði segjast ná endum saman með naumindum en 14% segjast ganga á sparifé eða safna skuldum til þess að ná endum saman. Af þeim sem búa í eigin húsnæði eru 66% sem segjast geta safnað talsverðu eða svolitlu sparifé, 24% sem segjast ná endum saman með naumindum en 10% sem notar sparifé eða safnar skuldum til að ná endum saman.

Jafnframt segir í skýrslunni að gögn frá Eurostat sýni að leiga sem hlutfall ráðstöfunartekna hjá lágtekjuhópum á leigumarkaði sé talsvert hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Húsnæðiskostnaður hefur verið talinn íþyngjandi þegar hann nemur 40% eða meira af ráðstöfunartekjum. Árið 2012 vörðu lágtekjuhópar á Íslandi hátt í 60% ráðstöfunartekna í leigu á meðan það hlutfall 45% á hinum Norðurlöndunum. Nýjustu gögn frá árinu 2016 sýna að lágtekjuhópar vörðu 50% ráðstöfunartekna í leigu hér á landi að meðaltali.