Ríkissjóður Íslands hefur ráðstafað 51 milljarði af stöðugleikaeignum í niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs. Þetta er meðal þess sem fram í fréttatilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu .

Greiðslur fjármuna inn á stöðugleikareikning Ríkissjóðs Íslands í Seðlabankanum hafa verið umtalsverðar frá því að framsal stöðugleikaeignanna átti sér stað á grundvelli stöðugleikasamninga við slitabú fallina fjármálafyrirtækja í upphafi árs 2016 hafa verið talsvert umfram væntingar.

Samtals hafa greiðslur vegna vegna stöðugleikaeignanna frá framsali þeirra í upphafi árs 2016 til og með 4. nóvember numið ríflega 72 milljörðum króna - þ.e. bæði greiðslur inn á stöðugleikareikninginn og innistæður á reikningum dótturfélaga. Áætlanir í upphafi gerðu ráð fyrir að greiðslur vegna þeirra myndi nema alls 68 milljörðum í lok þessa árs.

Þar af hefur Ríkissjóður Íslands samtals ráðstafað 51 milljarði til niðurgreiðslu skulda það sem af er þessu ári. Samtals nam því fjárhæð innistæðu á stöðugleikareikningi Ríkissjóðs ásamt innistæðu í dótturfélaga sem hluti af stöðugleikaeignum þann 4. nóvember 2016 ríflega 21 milljarður.

„Miðað við fyrrgreindar forsendur mun Lindarhvoll ehf. þá hafa náð markmiðum sínum fyrr en gert var ráð fyrir í upphaflegum áætlunum og mun starfsemi þess í árslok 2017 vera mjög óveruleg og snúa fyrst og fremst að almennum lagalegum frágangi félagsins ásamt því að ljúka uppgjöri á varasjóðum slitabúanna sem ljúka skal í síðasta lagi í árslok 2018,“ segir í tilkynningu Lindarhvols á vefsvæði Fjármálaráðuneytisins.