*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 5. nóvember 2004 10:10

51 milljónar króna tap hjá Tanga

Ritstjórn

Tap af rekstri Tanga hf. á Vopnafirði fyrstu níu mánuði ársins 2004 nam 51 milljón króna eftir skatta, samanborið við 134 milljóna króna hagnað fyrstu níu mánuðina árið áður. Tap fyrir afskriftir á þriðja ársfjórðungi nam 24 milljónum króna. Á sama tímabili árið 2003 nam hagnaður 221 milljón króna en inni í þeirri tölu var 153 milljóna króna hagnaður af sölu varanlegra aflaheimilda í loðnu. Helstu skýringar á lélegri afkomu á þriðja ársfjórðungi eru dræm kolmunnaveiði og hátt verð á olíu. Velta félagsins fyrstu níu mánuði ársins dróst saman um 15% miðað við fyrra ár en rekstrargjöld stóðu nánast í stað. Veltufé frá rekstri nam 102 milljónum króna.

Rekstrartekjur félagsins námu 1.226 milljónum króna fyrstu 9 mánuði ársins 2004 en voru 1.439 milljónir á sama tímabili árið 2003. Rekstrargjöld, önnur en afskriftir og fjármagnskostnaður, námu 1.070 milljónum króna nú en voru 1.060 milljónir fyrstu níu mánuði ársins 2003. Hagnaður fyrir afskriftir nam 155 milljónum króna á móti 379 milljónum á sama tíma í fyrra og veltufé frá rekstri nam 102 milljónum króna, eins og fyrr segir, samanborið við 164 milljónir árið áður. Afskriftir námu 163 milljónum króna á móti 209 milljónum á sama tímabili árið 2003.

Fyrstu níu mánuði ársins námu fjármagnsgjöld 64 milljónum króna umfram fjármagnstekjur en þau námu 24 milljónum króna umfram fjármagnstekjur fyrstu níu mánuði ársins 2003. Tap af reglulegri starfsemi fyrir skatta nam 72 milljónum króna, samanborið við 147 milljóna króna hagnað fyrstu 9 mánuði ársins 2003.

Rekstrartap reyndist á veiðum og vinnslu á kolmunna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við góða framlegð á sama tíma árið 2003. Veiðar og vinnsla bolfisks skiluðu heldur betri framlegð á þriðja ársfjórðungi ársins 2004 en 2003.

Framtíðarhorfur

Fjórði ársfjórðungur hefur byrjað vel. Kolmunnaveiðin glæddist og síldveiði hefur verið góð. Gott verð er á mjöli og lýsi og þokkalegt verð á heilfrystri síld. Því er áætlað að afkoma félagsins verði réttu megin við núllið þegar árið 2004 verður gert upp í heild sinni. Rekstur félagsins er sem fyrr mjög tengdur gengisþróun.