Verðbólga í Bretlandi mældist 5,1% í nóvember en hún hefur ekki verið meiri í áratug, eða síðan í septembermánuði árið 2011. Þetta kemur fram í tölum bresku hagstofunnar.

Verðbólgumarkmið Breska seðlabankans nemur 2% og er verðbólgan því töluvert ofar markmiði. Verðbólgan í Bretlandi hefur nú verið fyrir ofan markmiðið fjóra mánuði í röð en hún var 2% í júlí. Verðbólgan skýrist að miklu leyti af verðhækkunum á bensíni, notuðum bílum, fatnaði og mat.

Breski seðlabankinn hafði ekki gert ráð fyrir eins mikilli verðbólgu, en bankinn spáði 4,5% verðbólgu í mánuðinum. Aðrir sérfræðingar höfðu spáð 4,8% verðbólgu, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Flestir hagfræðingar hafa ekki séð fyrir þessa miklu verðbólgu sem hefur vaxið ört í Bretlandi sem og í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu.

Vaxandi verðbólga og lækkandi atvinnuleysi í Bretlandi myndi vanalega leiða til vaxtahækkana af hálfu Seðlabankans. Hins vegar hefur ör vöxtur kórónuveirutilfella að undanförnu aukið óvissu í efnahagsmálunum og er talið að bankinn muni því bíða með vaxtahækkanir í bili.