Nýverið var haldinn opinn fundur í Ráðhúsinu á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar þar sem kynnt voru áform um byggingu 5.100 til 5.600 íbúða hverfis á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Gert er ráð fyrir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og innviða fyrir allt að 12.600 manns þegar hverfið verður að fullu endurgert.

Svæðið verður stærsta uppbyggingarsvæði íbúða á höfuð­ borgarsvæðinu á næstu árum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að ef litið er til svæðisins í heild, þá sé stækkun Bryggjuhverfisins þegar hafin. Enn frekari stækkun þess verður einn af fyrstu áföngunum á svæðinu, síðar á þessu ári.

Á fundinum kynnti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri uppbyggingu hverfisins. Björn Guðbrandsson, arkitekt hjá Arkís, kynnti nýtt rammaskipulag, Sigríður Magn­úsdóttir frá teiknistofunni Tröð fjallaði um valkosti í skipulagi og samgöngum og Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, fór yfir uppbyggingará­formin. Hér má sjá glærur frá fundinum.

Á fundinum kom fram að deiliskipulag fyrir svæðið yrði tilbúið næsta haust. Til stendur að Reykjavíkurborg, Klasi hf. og Heild fasteignafélag skrifi undir viljayfirlýsingu um þróun á svæð­ inu. Þessir aðilar eru stærstu lóðaeigendurnir á svæðinu. Dagur segir í samtali við Viðskiptablaðið að borgin hafi óskað eftir viðræð­um og samstarfi við lykillóðahafa á svæðinu að fara hratt og vel í fyrstu áfangana þar. „Í stuttu máli er áhugi stórra lóðahafa sem eiga lóðir þarna á lykilsvæðum mikill. Ég bind vonir við það að þetta geti gerst,“ bætir Dagur við.

Fyrsti áfanginn er uppbygging tæplega 300 þúsund fermetra lands. Uppbyggingin gæti hafist á miðju næsta ári og er gert ráð fyrir að minnsta kosti 3.000 íbúðum í þeim áfanga en íbúafjöldinn ræðst af lokinni deiliskipulagsvinnu.

Eggið eða hænan

Í rammaskipulaginu kemur fram að Borgarlínan, nýr samgöngu og þróunarás í Reykjavík, muni liggja í gegnum svæðið. Fyrirhugað er að Borgarlína muni liggja frá miðbænum að Gullinbrú.

Ekki hefur verið ákveðið hvort hraðvagnakerfi eða léttlestakerfi verður fyrir valinu. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins kostar slíkt kerfi að lágmarki 60 milljarða króna og líklegt er ríkið taki þátt í kostnaðnum. Léttlestakerfi er þó mun dýrari en framangreind fjárhæð og seinlegra í uppbyggingu. Dagur segir að borgin sé að hugsa samgöngumálin á nýjan hátt og að þau séu samofin uppbyggingu á svæðinu.

„Við sjáum fyrir okkur að Borgarlínan, sem er mikið í umræðunni núna, tengi Höfðann alveg niður í Miðborg, með fram Skeifunni og Múlunum og þessum lykilsvæðum. Við viljum botna á þessu ári nákvæma legu og fjármögnun til þess að við getum sagt til nákvæmlega fyrir um hvern áfanga fyrir sig á Höfð­unum,“ segir Dagur. Hann bætir við að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu með danskan ráð­ gjafa í málinu. „Þau munu skila okkur tillögum fyrir vorið um þetta. Farþegagrunnurinn ræður miklu um hvort að það sé raunhæft að fara í léttlest eða hvort við látum hraðvagnakerfið duga. Þetta er svolítið eins og eggið og hænan,“ tekur Dagur fram og vísar til þess að því fleiri íbúar sem eru á svæðinu, því líklegra er að léttlestin verði byggð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.