Það sem af er þessu ári hefur Samgöngustofa gefið út 22 ný starfsleyfi til reksturs bílaleiga. Á síðasta ári voru gefin út 30 ný leyfi. Í dag eru 148 bílaleigur með starfsleyfi og hefur þeim því fjölgað um 54% á síðustu 22 mánuðum.
Níu stærstu bílaleigurnar eru með 70 til 80% bílaflotans sem þýðir að mikill fjöldi lítilla bílaleiga er með rekstrarleyfi. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru dæmi um að gistiheimili, ferðaskrifstofur og verkstæði séu með nokkra bílaleigubíla á sínum snærum.

Hálfgerð þvæla

Hjálmar Pétursson, forstjóri Alp, sem rekur Avis og Budget bílaleigurnar, segir að aukning í fjölda bílaleiga undanfarin ár sé hálfgerð þvæla.

„Þetta er hvergi svona í löndunum í kringum okkur," segir hann. „Ástæðan fyrir þessu er stóru bílaleigurnar hafa ekki náð að fjárfesta í nýjum bílum og stækka flotann nægilega til að geta elt markaðinn." Spurður um ástæðuna fyrir því að stóru leigurnar hafi ekki getað fjárfest sem skyldi svarar Hjálmar: "Allar stóru bílaleigurnar fóru í gegnum hrunið, eigið fé hefur verið af skornum skammti og vaxtaokrið á bílalánum gríðarlegt."

Hjálmar segir að þrátt fyrir erfiðar aðstæður hafi bílaleigur keypt töluvert af nýjum bílum undanfarin ár. Bílum sem hafa síðan verið seldir á almennum markaði og þannig stuðlað að endurnýjun á bílaflota almennings. „Miðað við spár um aukningu ferðamanna þá mun koma að þeim tímapunkti að við getum ekki losnað við notaða bíla. Hvað gerist þá? Þá aukast afföll í greininni sem mun á endanum þýða að við þurfum að hækka verð á bílaleigubílum. Sá sem mun finna markað erlendis fyrir íslenska bílaleigubíla verður ríkur."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .