Hagnaður Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar eftir skatta fyrir fjárhagsárið 2018 til 2019 var 400,5 milljónir króna samkvæmt ársreikningi félagsins og jókst velta þess um 5,2% milli ára og var 24,9 milljarðar króna. Ölgerðin greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Rekstrargjöld jukust á sama tíma um 4,3%.  Þá jókst launakostnaður um 3% frá fyrra rekstrarári. Arðsemi eigin fjár var um 8% og var eigið fé félagsins í árslok 4.853,5 milljónir króna. Fjöldi ársverka hjá félaginu var 424 og fækkaði þeim um 11 á milli ára.

„Við erum sátt við árangurinn á síðasta rekstrarári, enda gekk mikið á í þjóðfélaginu á þessum tíma með kjaraviðræðum og óvissu tengdri ferðaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Ölgerðin heldur forystuhlutverki á sínu sviði og þennan árangur má rekja beint til framúrskarandi starfsfólks sem og öflugs markaðsstarfs með afar góðar vörur," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar í tilkynningunni.

Dótturfélag Ölgerðarinnar, Mjöll Frigg, var sett í sölumeðferð á tímabilinu og var skrifað undir kaupsamning við Olís í vor. Salan bíður samþykktar Samkeppniseftirlitsins.

Hluthafar félagsins voru 28 í árslok, OA eignarhaldsfélag stærst með 26,1% eignarhlut, Horn III slhf. var með 25,1% eignarhlut og Akur fjárfestingar slhf. með 18,2% eignarhlut.