Síldarvinnslan hagnaðist um 39,3 milljónir dala, eða sem nemur 5,3 milljörðum króna, á síðasta ári. Rekstrartekjur námu 24,9 milljörðum króna. EBITDA framlegð var 32,1% og nam 8 milljörðum króna. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu á vef Síldarvinnslunnar.

Heildareignir Síldarvinnslunnar námu 72,5 milljörðum króna um síðustu áramót og eigið fé nam 49,1 milljarði króna. Eiginfjárhlutfall var því 68%.

Samanlagður afli skipa Síldarvinnslu-samstæðunnar var 145 þúsund tonn á síðasta ári og fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 123 þúsund tonnum af hráefni.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í febrúar mun Síldarvinnslan verða skráð á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi á fyrrihluta árs.

,,Ég er ánægður með árangur Síldarvinnslunnar á krefjandi ári. Reksturinn var traustur og fjárhagsstaða félagsins sterk. Síldarvinnslan er útflutningsfyrirtæki sem að starfar á alþjóðlegum mörkuðum og hafði Covid-19 heimsfaraldurinn áhrif á starfsemi félagsins árið 2020. Þurftum við að aðlaga veiðar, framleiðslu og sölu afurða að breyttum veruleika með lokunum landamæra og takmörkunum á ferðalögum víðsvegar um heiminn. Starfsfólk félagsins sýndi framúrskarandi aðlögunarhæfni og samstöðu á þessum erfiðu tímum. Ekki kom til lokunar í vinnslum eða röskunar á útgerð vegna áhrifa af Covid-19. Annað árið í röð veiddist engin loðna með tilheyrandi tekjutapi fyrir félagið. Áhersla Síldarvinnslunnar síðastliðinn áratug hefur verið að fjárfesta í bolfiskheimildum og efla þann hluta starfsemi félagsins. Með því hefur tekist að verja afkomu- og tekjugrundvöll félagsins þegar að sveiflur í uppsjávarheimildum gætir líkt og gerst hefur í tilfelli loðnunnar síðastliðinn tvö rekstrarár. Fjárfestingar í nýjum skipakosti og innviðum síðustu ára hafa skilað sér í aukinni hagkvæmni í rekstri. Á árinu 2020 staðfesti íslenskur sjávarútvegur mikilvægi sitt sem ein af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar og undirstaða velferðar. Við hjá Síldarvinnslunni erum stolt af okkar framlagi til íslenskrar verðmætasköpunnar. Fyrirhuguð er skráning á hlutabréfum Síldarvinnslunar í Kauphöll sem markar tímamót í starfsemi félagsins, eflir félagið og opnar fyrir fjárfestum. Nýafstaðin loðnuvertíð var vel heppnuð þó hún væri ekki stór í sögulegu samhengi.  Veiðar og vinnsla gengu vel, allt var unnið til manneldis.  Ljóst er að fjárfestingar síðustu ára í skipum og manneldisvinnslu hafi tryggt hámarks verðmætasköpun," er haft eftir Gunnþóri Ingvasyni, forstjóra Síldarvinnslunnar í tilkynningunni.