Hagnaður millilagssjóðsins Carta Capital Mezzanine Fund I var 1.160 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 763 milljónir 2005 og jókst um 54%. Lánasafnið, sem allt samanstendur af millilagslánum (e. Mezzanine loans), stækkaði um um 35% milli ára og og var 6.983 milljónir í lok árs.


Ávöxtun á meðalstöðu lánasafns var 19,5%. Lánasafn er sterkt í lok árs 2006 og engar afskriftir lána hafa átt sér stað frá stofnun sjóðsins segir í tilkynningu sjóðsins.


Árið 2006 var metár í starfsemi sjóðsins og lánaði sjóðurinn 3.800 milljónir í millilagslán.  Verkefnastaða sjóðsins var góð og sjóðurinn hefur markvisst fylgt eftir stefnu sinni að vera lánveitandi til lítilla og millistóra fyrirtækja í Evrópu.  Vel lítur út með afkomu sjóðsins á yfirstandandi ári

Stjórn Carta Capital GP og Deloitte & Touche samþykktu reikninga sjóðsins fyrir árið 2006 án athugasemda um miðjan mars og aðalfundur sjóðsins var haldinn 22. mars 2007.

Carta Capital Mezzanine Fund I sem er stýrt af Carta Capital GP veitir fjárfestum tækifæri til þátttöku í millilagslánum á skuldsetta lánamarkaðinum (e. leverage loan market) í Evrópu en slík fjármögnun er yfirleitt hluti af heildarfjármögnun skuldsettra uppkaupa fyrirtækja. Fyrirtækið rekur í dag einn sjóð, Carta Capital Mezzanine Fund I, en er um þessar mundir að safna fjárfestum í næsta fjárfestingasamstarf sem gert er ráð fyrir að byrji að fjárfesta fljótlega.

Markaðurinn í Evrópu fyrir millilagsfjármögnun hefur vaxið mikið undanfarin ár og síðasta ár var engin undantekning en þá óx markaðurinn um 27%. Vöxturinn hefur verið mestur í stærri verkefnum þar sem samkeppni hefur einnig verið að aukast mikið. Sérstaða Carta Capital hefur frá upphafi verið sérhæfing í minni verkefnum þar sem hlutfall á milli skuldsetningar og arðsemi er töluvert betri en í stærri verkefnum. Almennt hefur þróun markaðarins verið jákvæð fyrir Carta Capital og hefur arðsemi Carta Capital Mezzanine Fund I verið yfir meðalarðsemi markaðarins í Evrópu segir í tilkynningu.

Carta Capital er sjóðastýringarfyrirtæki sem sérhæfir sig í millilagsfjármögnun (e. mezzanine finance). Millilagsfjármögnun er fjármögnun sem liggur á milli hefðbundinna bankalána og eiginfjár. Slík fjármögnun er yfirleitt hluti af heildarfjármögnun við skuldsett uppkaup fyrirtækja erlendis og rekur upphaf sitt í því formi sem algengast er í Evrópu til Bretlands. Carta Capital var stofnað árið 2003 með það að markmiði að veita fjárfestum á Íslandi aðild að skuldsetta lánamarkaðinum í Evrópu og eru fjárfestar Carta Capital íslenskir bankar, sparisjóðir, lífeyrisjóðir, tryggingarfélög auk félaga í eigu fjársterkra einstaklinga. Carta Capital er með skrifstofur í Reykjavík, London, Jersey og Luxemborg.