Tekjuskattur einstaklinga hækkar sem kunnugt er úr 22,75% í 24,1% nú um áramót. Þá verður meðalútsvar á árinu 13,1% en var 12,97% á árinu 2008.

Staðgreiðsluhlutfall ársins 2009 verður samkvæmt því 37,2% í stað 35,72% á þessu ári og hækkar samkvæmt því um 1,48 prósentustig milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu í morgun en lögum samkvæmt ákveður og auglýsir fjármálaráðuneytið árlega staðgreiðsluhlutfall opinberra gjalda fyrir komandi ár, en það er samtala af tekjuskatthlutfalli og meðalhlutfalli útsvars samkvæmt ákvörðunum sveitarfélaga.

Í tilkynningunni er tekið fram að nýverið voru samþykkt á Alþingi lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum í ljósi versnandi afkomu hins opinbera vegna þess mikla samdráttar sem nú blasir við í íslensku efnahagslífi. Meðal þeirra ráðstafana var hækkun á tekjuskatthlutfalli einstaklinga úr 22,75% í 24,1% og á hámarkshlutfalli útsvars úr 13,03% í 13,28%.

Eitt sveitafélag lækkar útsvar

Sveitarfélögin geta ákveðið útsvar á bilinu 11,24% til 13,28%. Eitt sveitafélag, Fljótsdalshérað lækkar útsvar sitt á árinu þar sem það lækkar úr fyrra hámarki 13,03% í 12%.

Þá munu 58 sveitafélög hækka útsvar sitt en af 78 sveitarfélögum leggja 54 þeirra á hámarksútsvar. Þrjú sveitarfélög, Skorradalshreppur, Helgafellssveit og Ásahreppur leggja á lágmarksútsvar.

Persónuafsláttur vísitölutengdur og hækkar um 24%

Persónuafsláttur hækkar um 24% milli ára og verður á árinu 42.205 krónur að meðaltali á mánuði í stað 34.034 króna árið 2008.

Í lok árs 2006 var samþykkt sú breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, að persónuafsláttur skuli endurskoðaður árlega, í fyrsta sinn frá 1. janúar 2008. Samkvæmt A-lið 67. gr. laganna skal fjárhæð persónuafsláttar í upphafi hvers árs breytast í takt við breytingu á vísitölu neysluverðs yfir næstliðið tólf mánaða tímabil. Nú liggur fyrir mæling Hagstofu Íslands á vísitölu neysluverðs fyrir desembermánuð 2008 sem reyndist vera 332,9 stig samanborið við 281,8 stig í desember 2007. Hækkunin milli ára nemur samkvæmt því 18,1%.

Í tengslum við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 ákvað ríkisstjórnin að beita sér fyrir ýmsum aðgerðum á sviði skattamála til að stuðla að auknum jöfnuði í íslensku samfélagi. Meðal þeirra aðgerða var sérstök hækkun á persónuafslætti í þremur áföngum. Var sú hækkun lögfest síðastliðið vor.

Fyrsti áfanginn kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2009 þegar persónuafslátturinn hækkar sérstaklega um 2.000 krónur á mánuði, eða samtals 24.000 krónur á ári til viðbótar þeirri hækkun sem hlýst af af hækkun vísitölu neysluverðs.

Skattleysismörk hækka

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins kemur fram að hlutfallsleg hækkun persónuafsláttar umfram hlutfallslega hækkun tekjuskatts og útsvars leiðir til umtalsverðrar hækkunar í skattleysismörkum einstaklinga.

Í dag eru skattleysismörkin liðlega 99 þúsund krónur á mánuði en verða 118 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2009 (að teknu tilliti til 4% lífeyrissjóðsiðgjalds). Hækkunin nemur 19,1%.