Verðbólga í Bretlandi mældist 5,4% í desember en hún hefur ekki mælst meiri í þrjátíu ár, eða síðan í marsmánuði árið 1992 þegar hún mældist 7,1%. Verðbólgan hækkaði um 0,3% frá því í nóvember þegar hún mældist 5,1%. Þetta kemur fram í tölum bresku hagstofunnar.

Verðbólgan í Bretlandi hefur nú mælst fyrir ofan 2% verðbólgumarkmið Englandsbanka fimm mánuði í röð. Englandsbanki kynnir vaxtaákvörðun sína í byrjun næsta mánaðar, en greiningaraðilar áætla að bankinn muni hækka vexti úr 0,25% í 1,25% fyrir lok þessa árs, að því er kemur fram í grein hjá The Times.

Sérfræðingar höfðu spáð 5,2% ársverðbólgu í desember og gerðu ráð fyrir því að Ómíkron afbrigðið myndi draga úr einkaneyslunni, en svo varð ekki. Greiningaraðilar óttast að verðbólgan muni mælast umfram 7% á árinu, en spár gera jafnframt ráð fyrir því að verðbólgan verði áfram yfir markmiði næstu tvö árin í hið minnsta.

Rafmagnsreikningur Breta hækki um 50%

Verðbólgan mun að öllum líkindum mælast umfram 6% í apríl á þessu ári þegar þak á orkuverð verður afnumið af breskum yfirvöldum. Sérfræðingar telja að rafmagnsreikningur Breta hækki um 50% í kjölfar þessa, að því er kemur fram í grein Reuters.

Miklar verðhækkanir hafa verið á ýmsum vörum og þjónustu í mánuðinum vegna framboðsskorts í heimshagkerfinu af völdum flöskuhálsa í virðiskeðjum. Verðhækkanir á mat og drykk höfðu mestu áhrifin á verðbólguaukninguna í desember. Auk þess hafa verðhækkanir á húsnæði, fatnaði, húsgögnum og á veitingastöðum og hótelum haft mikil áhrif á verðbólguna.