Um helmingur allra SMS-skilaboða sem send eru innan íslenska farsímanetsins eru send af viðskiptavinum Nova. Í árslok 2008 voru 87% allra slíkra send af viðskiptavinum Vodafone og Símans. Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um íslenska fjarskiptamarkaðinn. Nova og Vodafone hafa saman yfirburðarstöðu í sendum MMSskilaboðum en samtals eru 87% allra slíkra myndskilaboða send frá viðskiptavinum þeirra. Einungis 9,9% MMS-skilaboða eru send frá viðskiptavinum Símans. Samtals voru send tæplega 172 milljón SMS-skilaboð á Íslandi í fyrra. Það þýðir að hver Íslendingur sendi að meðaltali um 540 slík skilaboð á árinu 2010. Samtals voru send um 1,4 milljónir MMS-skilaboða í fyrra.