Rekstrarniðurstaða Mosfellsbæjar á síðasta ári var neikvæð um 541 milljón sem er um 770 milljóna lakari afkoma en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Sveitarfélagið skilaði 416 milljóna króna afgangi árið 2019.

Hallinn skýrist helst af lægri tekjum vegna lækkunar launatekna íbúa, minni íbúafjölgun í sveitarfélaginu, minnkandi framlaga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til málefna fatlaðs fólks og aukins fjármagnskostnaðar, að því er segir í fréttatilkynningu.

Tekjur ársins námu um 13 milljörðum króna, launakostnaður 6.7 milljörðum og annar rekstrarkostnaður 5,7 milljörðum. Framlegð bæjarfélagsins nam því 638 milljónum króna. Veltufé frá rekstri var 495 milljónir eða 3,8% af tekjum.

Eigið fé í árslok nam 6,9 milljörðum króna, samanborið við 7,2 milljarða árið áður. Skuldir Mosfellsbæjar hækkuðu um 2,8 milljarða króna og námu 16,8 milljörðum í árslok. Eiginfjárhlutfallið lækkaði því úr 33,9% árið 2019 í 29,0% í lok síðasta árs. Skuldaviðmið er 99,8% og því innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.

Framkvæmdir á vegum Mosfellsbæjar á árunum 2019 og 2020 voru í sögulegu hámarki. Samtals var framkvæmda- og uppbyggingakostnaður 2,8 milljarðar króna á síðasta ári og má þar nefna byggingu Helgafellsskóla, uppbygging íþróttamannvirkja, endurbætur á skólahúsnæði auk gatnaframkvæmda.

Íbúar Mosfellsbæjar voru 12.565 talsins þann 1. desember síðastliðinn og fjölguðu um 469 íbúa eða um 3,9% á milli ára sem er minni fjölgun en áætlanir gerðu ráð fyrir. Mosfellsbær er sem fyrr sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 818 starfsmenn í 673 stöðugildum í árslok 2020.

„Ársreikningur fyrir árið 2020 endurspeglar þann skugga sem heimsfaraldurinn varpar á starfsemi sveitarfélaga en einnig sterka stöðu Mosfellsbæjar til að mæta tímabundinni fjárhagslegri ágjöf,“ er haft eftir Haraldi Sverrissyni , bæjarstjóra Mosfellsbæjar, í fréttatilkynningu.

„Minnkandi skatttekjur vegna áhrifa kórónaveirunnar á efnahag sveitarfélaga hefur neikvæð áhrif á afkomu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið er rekið af ábyrgð með áherslu á komandi kynslóðir og ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 sýnir að við höfum hafið okkar viðspyrnu um leið og við verjum þjónustu við íbúa af fullu afli.

Efnahagsleg áhrif faraldursins eru það mikil á rekstur sveitarfélagsins að óhjákvæmilegt er annað en að bæjarsjóður verði rekinn með halla um sinn. Hinn möguleikinn hefði verið að skera verulega niður í rekstri og þjónustu sveitarfélagsins en það er ekki skynsamleg stefna við ríkjandi aðstæður. Skilvirkur rekstur og sterk fjárhagsstaða auðveldar okkur að taka vel á móti nýjum íbúum og þjónustan er vel metin af íbúum samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar Gallup,“ segir Haraldur.