„Við erum fjarri því komin á endastöð,“ segir Eva B. Helgadóttir sem á sæti í slitastjórn Byrs sparisjóðs spurð um það hvenær hilli undir að skiptum á búi Byr sparisjóðs ljúki.

Fjármálaeftirlitið greip inn í rekstur Byrs í apríl árið 2010 og keypti Íslandsbanki rekstur Byrs hf. í nóvember ári síðar. Eftir stendur Byr sparisjóður. Lýstar kröfur í þrotabúið nema 86 milljörðum króna. Slitastjórn vísaði frá kröfum upp á 29,3 milljarða króna og hljóða samþykktar kröfur því upp á 55,3 milljarða króna.

Slitastjórnin auglýsti í vikunni skiptafund þar sem farið verður yfir stöðu slitabúsins og önnur mál. Eva segir mörg ágreiningsmál fyrir dómstólum. Það fari því í raun eftir dómstólum hvenær slitum ljúki.