Hluthafar Strengs Holding ehf., móðurfélags Strengs hf., lögðu fjárfestingarfélaginu til 5,5 milljarða króna við stofnun á seinni hluta síðasta árs. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2020.

Félagið hagnaðist um 432 milljónir króna og þar munaði mest um 363 milljóna króna tekjur af gengisbreytingum markaðshlutabréfa. Eignir félagsins námu 8,2 milljörðum króna í árslok 2020. Skuldir voru rétt undir 2,3 milljörðum, þar af féll 2,1 milljarður undir skuldabréfalán og 170 milljónir í skuld við tengd félög.

Strengur Holding er í eigu 365 hf., RES 9 ehf. og RPF ehf. 365 og RES 9 eiga bæði 38% í Streng Holding og RPF með 24%.

Strengur Holding er stærsti hluthafi fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns með 22,31% hlut og þá á dótturfélagið Strengur hf. 50,06% hlut í Skeljungi.