Vegna veikingar krónunnar og ástandsins í efnahagsmálum er útlit fyrir að Íslendingar komi til með að ferðast lítið til útlanda í sumar.

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða og Terra Nova segir í samtali við Viðskiptablaðið að útlitið fyrir sumarið sé þokkalegt.

Ferðskrifstofurnar hafa þó minnkað framboð sitt af sætum um tæp 55%, úr 30 þúsund sætum yfir sumartímann í 14 þúsund sæti og segir Tómas að salan í þau sæti hafa gengið sæmilega.

„Við látum framboðið ráðast af aðstæðum og því var nauðsynlegt að draga úr því fyrir sumarið,“ segir Tómas.

Hvað varðar verðhækkanir á ferðum segir Tómas að hjá þeim verði ekki komist með lækkandi gengi krónunnar. Hann segir að skrifstofurnar hafi reynt að halda verðhækkunum í lágmarki en þær hafi þó hækkað á bilinu 30 – 40%.

Viðskiptavinir Heimsferða og Terra Nova fljúga helst með Primera Air, flugfélags í eigu Primera Travel Group (sem einnig á Heimsferðir og Terra Nova) en þá skiptir félagið einnig við Icelandair Group og Iceland Express.

Tómas segir að með því að vera ekki bundin í flugsamningum og bókuðum gistingum geti félagið haldi velli með því að draga saman og draga úr framboði.

Hvað hótelin varðar hefur félagið gert samninga við hótel erlendis, svokallaða alotment samninga sem fela það í sér að herbergin eru tekin frá fyrir ferðaskrifstofurnar en hægt er að afpanta þau innan ákveðins tíma. Tómas segir að samskiptin við hótelin erlendis séu góð og ferðaskrifstofur út um allan heim séu að minnka framboð sín, ekki bara íslenskar skrifstofur.

En eins og fyrr segir hafa bæði Heimsferðir og eins Terra Nova dregið verulega saman seglin.  Ekki aðeins er minna framboð á sætum út heldur hefur starfsfólki fækkað verulega milli ára. Hjá félögunum starfa nú um 30 manns, einhverjir í minna starfshlutfalli en áður, sem er fækkun um helming frá því í fyrra.