Verðbólga í Bretlandi mældist 5,5% í janúar og hefur ekki verið meiri í þrjátíu ár, síðan í marsmánuði árið 1992 þegar hún mældist 7,1%. Verðbólgan hækkaði um 0,1% frá því í desember þegar hún mældist 5,4%. Þetta kemur fram í tölum bresku hagstofunnar.

Verðbólgan í Bretlandi hefur nú mælst fyrir ofan 2% verðbólgumarkmið Englandsbanka sex mánuði í röð. Hagfræðingar höfðu spáð óbreyttri 5,4% ársverðbólgu í janúar, að því er kemur fram í grein The Times. Greiningaraðilar óttast að verðbólgan muni mælast 6% í febrúar og umfram 7% strax í apríl á þessu ári þegar þak á orkuverð verður hækkað.

Englandsbanki kynnir vaxtaákvörðun sína í næsta mánuði en greiningaraðilar áætla að bankinn muni hækka vexti í þriðja skiptið í röð. Bankinn hefur hækkað vexti um 40 punkta á skömmum tíma, fyrst úr 0,1% upp í 0,25% í desember og síðan úr 0,25% upp í 0,5% í janúar.

Árshækkun á rafmagnsverði var 19,2% í janúar, en hækkun á gasi var 28,3% milli ára. Janúarútsölur gerðu það að verkum að fatnaður og skór lækkuðu í verði um 2,9% í mánuðinum, en lækkunin hefur ekki verið jafn lítil síðan árið 1990.