553 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag, en þeir hafa aldrei verið fleiri.

Tækni- og verkfræðideild háskólans útskrifaði flesta nemendur, eða 201. Þar á eftir kom viðskiptadeildin með 183 nemendur.

Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, ávarpaði útskriftarnema í Hörpunni og ræddi meðal annars um mikilvægi menntunar.

„Ísland nýtur þess að hafa aðgengi að dýrmætum auðlindum í orku, í hafi og í náttúru. Við horfum líka til þess að nýting okkar á þessum auðlindum sé sjálfbær til framtíðar og vonandi auðnast okkur að halda því. En til þess að svo megi verða, þá þurfum við stöðugt að finna nýjar leiðir til að skapa verðmæti og til að bæta okkar samfélag, án þess að ganga á auðlindir framtíðarinnar. Þetta tvennt - hraðar breytingar umheimsins og hagsmunir Íslands til lengri tíma - kallar skýrt á það að við nýtum menntun okkar og hugvit til að breyta okkar samfélagi, skapa ný tækifæri og þora að takast á við krefjandi verkefni. Og það eru engir betur í þann stakk búnir en þeir sem hér útskrifast í dag,“ sagði Ari Kristinn.

Þá greindi Ari einnig frá því að samkvæmt könnun sem nýlega var gerð meðal útskriftarnema við HR eru 83% þeirra sem stefna á vinnumarkaðinn þegar komnir með vinnu.