Á árinu voru heildarviðskipti með hlutabréf í kauphöll Nasdaq Iceland að andvirði 559 milljörðum króna, sem gerir 2.227 milljón króna meðalviðskipti á dag.

Þetta er 41% veltuaukning frá fyrra ári, en árið 2015 var heildarveltan 392 milljarðar sem gerir 1.582 milljón króna meðalveltu á dag.

Mestu viðskiptin vorumeð bréf Icelandair Group, eða sem nemur 140,1 milljarði, þar næst koma Marel með 70,4 milljarða, hagar með 52,6 milljarða, Reitir fasteignafélag með 40,8 milljarða og N1 með 40,6 milljarða.

Verð bréfa N1 hækkaði mest á Aðalmarkaði, eða um 84% á árinu og næst mesta hækkunin var á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, eða 37%. Á Nasdaq First North markaðnum var mesta hækkunin á bréfum Hampiðjunnar, eða 24%.

Verð bréfa HB Granda lækkaði mest, eða um 36,7% á árinu og þar strax á eftir er gengi bréfa Icelandair Group, sem lækkaði um 34,7%.

Úrvalsvísitalan stendur nú í lok árs í 1.711 stigum sem nemur 9,0% lækkun á árinu, en heildarvísitala hlutabréfa lækkaði um 6,7%. Markaðsvirði hlutabréfa sem skráð eru í kauphöllina hafa lækkað um 5% frá því fyrir ári, en nú nemur það 993 milljörðum króna.

Hlutabréf tveggja félaga voru tekin til viðskipta á árinu, það er Iceland Seafood International hf. sem skráð var á First North, og svo bréf Skeljungs hf. sem skráð voru á Aðalmarkað.