Um 56% segjast hlynntir einhliða upptöku alþjóðlegrar myntar á Íslandi, samkvæmt nýrri skoðanakönnum sem Capacent Gallup gerði fyrir áhugamenn um stjórn peningamála. Spurningin hljóðaði svo: „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að tekin verði einhliða upp alþjóðleg mynt á Íslandi í stað krónunnar?"

21,6% sögðust andvígir en 22% svöruðu hvorki né.

Einnig var fólk spurt hvenær það vildi að alþjóðleg mynt verði einhliða tekin upp á Íslandi. Um 69% þeirra sem vilja taka upp aðra mynt í stað krónu sögðust vilja að það yrði gert á næstu 6 mánuðum. Einnig kom í ljós að 85% þeirra sem vilja gjaldmiðilsbreytingu vilja að hún verði innan 12 mánaða.

Um 70% af þeim sem sögðust vilja aðra mynt vildu evruna, 26% dollar, 14% norska krónu og 3,9% annað.

Markmið könnunarinnar var að kanna viðhorf almennings til upptöku alþjóðlegrar myntar og var hún framkvæmd á tímabilinu 18. - 30. desember. Fjöldi svarenda var 762 og svarhlutfall 61,8%.