Um 56 milljarða útgjaldaaukning var á milli fjárlaga ársins 2017 og 2018 að því er kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Tvö frumvörp til fjárlaga árið 2018 voru lögð fram á þinginu í haust en það seinna gerði ráð fyrir 30 milljörðum meiri útgjöldum en það fyrra. Hlutfallslega mest útgjaldaaukning var til æðstu stjórnsýslu og dómstóla en þeir útgjöld til þeirra málaflokka jukust um tæplega þriðjung á milli fjárlaga 2017 og 2018. Þar á eftir koma lyf og lækningavörur og ferðaþjónusta.

Aðeins tveir málaflokkar lækka að ráði milli fjárlaga 2017 og 2018. Annars vegar fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar og hins vegar húsnæðisstuðningur. Fyrrnefndi liðurinn lækkar langmest eða um tæpa 12 milljarða og má rekja til stórbættrar skuldastöðu ríkisins.

Samþykkt fjárlög gera ráð fyrir tæpum 33 milljarða króna afgangi eða um 1,2% af landsframleiðslu.

Tekjur ríkissjóðs jukust um 64 ma. kr. milli fjárlaga áranna 2017 og 2018, eða um 8,3%. Tekjur vegna skatta á vörum og þjónustu, sem að mestu leyti er virðisaukaskattur, jukust um næstum 29 ma. kr. og skattar á tekjur og hagnað einstaklinga og fyrirtækja jukust um rúma 25 ma. kr. Þessir tveir skattstofnar jukust því um 54 ma. kr., eða um 85% af öllum tekjuauka ríkissjóðs.

Sé hins vegar litið á hvaða tekjustofnar hækkuðu hlutfallslega mest þá var um langmesta hækkun að ræða á eignasköttum eða um tæplega fjórðung. Stóru tekjuliðirnir, óbeinir skattar og tekjuskattar jukust um tæplega 10% sem er í góðu samræmi við veltu- og tekjuaukningu í samfélaginu.