Framtakssjóður Íslands ákvað á hluthafafundi sjóðsins í þessari viku að greiða hluthöfum sínum sérstaka arðgreiðslu upp á 5,6 milljarða króna. Með þessu hefur sjóðurinn greitt eigendum sínum 17,3 milljarða í arð sem er meira en helmingur af öllu innkölluðu hlutafé sjóðsins.

Þetta kemur fram í viðtali Fréttablaðsins við Þorkel Sigurlaugsson, stjórnarformann sjóðsins. Um áramót voru eignir sjóðsins bókfærðar á 29 milljarða króna, en matsvirði þeirra var 46 milljarðar. Sjóðurinn hefur til þessa fjárfest fyrir um 32 milljarða og á eftir 22 milljarða til fjárfestinga samkvæmt þeim loforðum sem eigendur sjóðsins skuldbundu sig til. Sjóðurinn á enn stóra hluti í félögum á borð við Icelandair, N1 og Advania.