Verktakafyrirtækið Ístak hefur sagt upp 56 starfsmönnum vegna óvissrar verkefnastöðu. Forstjóri félagsins segir viðbrögð Eflingar vekja mikla furðu. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í morgun.

Alls hefur 31 fastráðnum starfsmanni verið sagt upp, og samningur um þjónustu 25 til viðbótar, sem sinnt hafa verkefnum fyrir félagið á vegum starfsmannaleigu, verður ekki endurnýjaður.

Haft er eftir Karli Andreassen, forstjóra Ístaks, að þremur stórum verkefnum sé nú að ljúka, en vonast sé til að „þegar og ef“ verkefni sem félagið hafi verið lægstbjóðandi í fari af stað, verði hægt að draga megnið af uppsögnunum til baka.

Karl segir að þegar Eflingu hafi verið tilkynnt um uppsagnirnar hafi fyrirtækinu verið gert ljóst að ákvörðunin kynni að valda því að verkfallsaðgerðum yrði beitt gegn því. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafnar því að um hótun sé að ræða, en segir félagið ekki vera undir „friðarskyldu“.