Fiskistofnarnir umhverfis landið er takmörkuð auðlind og skipaflotinn afkastamikill. Samningar við Norðmenn og Rússa gefa íslenskum útgerðum visst rými til veiða í Barentshafinu og þaðan kom Arnar HU nýlega eftir velheppnaða veiðiferð sem lauk svo á Halanum fyrir vestan land.

Heildarmagn afla upp úr sjó var um 993 tonn, þar af um 730 tonn af þorski, 158 tonn af gullkarfa, 58 tonn af ufsfa og 41 tonn af ýsu. Heildarverðmæti aflans var um 363 milljónir króna.

„Þetta var 28 daga túr og bara hluti af honum var þarna norður frá. Við vorum eitt af kvótamestu skipunum sem fóru þarna norður eftir með 600 tonn af þorski og um 90 tonn af ýsu og ufsa. Við vorum ekki nema tólf daga að veiðum þarna og svo héldum við á heimamið,“ segir Guðjón Guðjónsson skipstjóri.

11 sólarhringa stím

Hann segir að veiðin hafi verið mjög góð í Barentshafinu. Vandinn við þessar veiðar séu hið langa stím þangað sem eru heilir ellefu sólarhringar. Það hafi gjörbreyst allt á þessum löngum stímum þegar netsamband komst á í skipunum og áhafnirnar geta verið í daglegu sambandi við umheiminn og sína nánustu. Annað hafi verið uppi á teningnum á Smuguárunum þegar menn urðu að láta sér duga myndbönd eða bækur til að hafa ofan af fyrir sér.

„Við vorum mikið norður og norðaustur af Múrmansk. Það voru ekki mörg skip þarna fyrir utan þau íslensku en líka tveir eða þrír Færeyingar og stöku sinnum komu rússnesk skip. Við áttum erfitt með að fara austar því þar er svo mikið af ýsu. Einungis 9% af þorskkvótanum má vera ýsa. En þorskurinn þarna er ekki síðri og jafnvel stærri en á Íslandsmiðum.“

Mokveiði á Halanum

Eftir langt heimstím var Arnar kominn á veiðar á Strandagrunni og í kantinum vestan við Hala 22. júní.

„Þar var mokveiði allan tímann og ekki síðri veiði en þarna norður frá. Þarna tókum við um 300 tonn á sjö dögum. Meðalaflinn í túrnum sem stóð í 28 daga var 56 tonn á dag þó að stímin séu talin með. Þetta gerist ekkert betra, alla vega ekki hjá okkur. Þetta er samt ekki mettúr í verðmætum. Þeir túrar voru á árunum strax eftir hrun þegar gengið var upp úr öllu valdi. En í magni til var þetta með betri túrum,“ segir Guðjón.

Ekki verður farið meira í Barentshafið á þessu ári og ekki fyrr en í febrúar á næsta ári. Því hagaði þannig til núna að Guðjón fór báða túrana í Barentshafið að þessu sinni. Í febrúartúrnum var farið í norsku lögsöguna og var afraksturinn um 300 milljóna króna túr. Barentshafið hefur því skilað útgerðinni nærri 700 milljónum króna í aflaverðmætum á þessu ári.

„Samningarnir við Norðmenn og Rússa um veiðar okkar í Barentshafi eru afar mikilvægir. Við fáum kvóta hjá Norðmönnum en ekki Rússum en við leigjum ákveðið kvótamagn af þeim. Upphaflega komu þessir samningar til af því að við lofuðum því að hætta að veiða í Smugunni. Smugan er því ennþá að skila sínu til okkar,“ segir Guðjón.

Fréttin birtist upphaflega í Fiskifréttum 11. júlí