Félagsdómur hafnaði í gær kröfu íslenska ríkisins um að boðuð verkföll fimm stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna (BHM) hefðu verið boðuð með ólöglegum hætti. Þar með hófst verkfall 560 ríkisstarfsmanna nú í morgun.

„Mér þykir það hart að menn séu að eyða dýrmætum tíma í það að vera að deila um formsatriði í staðinn fyrir að reyna að finna lausn á þessari kjaradeilu,“ segir Páll Halldórsson, formaður BHM, í samtali við Morgunblaðið . Lítið hefur þokast í viðræðum og var síðasti fundur fyrir sex dögum síðan og er nýr fundur boðaður á morgun.

Meðal annars leggja lögfræðingar innan sýslumannsembættisins í Reykjavík niður störf í dag. Það þýðir að til dæmist verður hægt að þinglýsa skjölum eða afgreiða fullnustugerðir innan embættisins í dag. Þá mun starfsemi Landspítalans raskast nokkuð þar sem 323 geisla- og lífeindafræðingar, 135 ljósmæður og 75 náttúrufræðingar hófu verkfallsaðgerðir í morgun.