Ríkissjóður verður rekinn með 56,9 milljarða króna halla samkvæmt fjálagafrumvarpinu sem Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, kynnti í dag.

Endurskoðuð áætlun fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir 2,9 milljarða afgangi á rekstri ríkissjóðs í ár í stað fyrir 32,9 milljarða afgang, sem var á þeim fjárlögum sem Alþingi afgreiddi.

Frumvarpið er kynnt sem rammaáætlun til næstu fjögurra ára og er gert ráð fyrir hallarekstri á ríkissjóði fram til ársins 2012.

Í stað 473,4 milljarða tekna ríkissjóðs, sem ráð var fyrir gert á fjárlögum, telur fjármálaráðuneytið nú að tekjur ríkisins verði 463,4 milljarðar króna í ár.  Fjárlögin gerðu ráð fyrir að gjöld ríkisins  yrðu 434,2 milljarðar en við endurskoðun áætlunar hefur sú tala nú verið hækkuð í 460,5 milljarða króna.

Fjárlagafrumvarp ársins 2009 gerir svo ráð fyrir því að tekjur ríkisins dragist saman um 10 milljarða fra endurskoðun ársins og 450,5 milljarðar á næsta ári en að gjöldin hætti um 46,9 milljarða frá því sem nú er talið að verði árið 2008. Þannig verði útgjöld næsta árs 507,4 milljarðar króna.

Í fyrsta skipti frá árinu 2004 er verðlagsuppfærslu beitt í fjárlagafrumvarpinu og leggst hún á vörugjöld sem ákveðin eru í krónutölu og innheimt er af vörum eins og bensíni, dísilolíu, áfengi og tóbak..

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, staðfesti á fundi með blaðamönnum í gær það sem Viðskiptablaðið greindi frá á föstudag að fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir að þessi gjöld yrðu hækkuð með verðlagsuppfærslu þannig að þau skiluðu ríkissjóði sömu tekjum að raungildi og á síðasta ári. Ráðherra sagði að hækkunin næmi  um 11,5%.

Áfengis- og tóbaksgjald gefi af sér milljarð til viðbótar

Á fjárlagavef fjármálaráðuneytisins kemur fram að í fyrra hafi  ríkissjóður haft 8.150 milljóna króna tekjur af áfengisgjaldi og 3.770 milljóna tekjur af tóbaksgjaldi. Áfengisgjaldið hækkar samkvæmt frumvarpinu í 8.883 milljónir króna en tóbaksgjhaldið í 4.260 milljónir.

Verðtryggð gjöld á eldsneyti og bíla

Á fjárlögum síðasta árs var gert rað fyrir  6.030 milljóna tekju af olíugjaldi og 2.100 milljónir króna í vörugjald af bensíni og 7,420 milljónir vegna sérstaks vörugjalds af bensíni.

Í frumvarpinu, sem lagt var fram í gær er gert ráð fyrir 2,150 milljóna króna tekjum af vörugjaldi af bensíni, 7.653 milljóna tekjum af sérstöku vörugjaldi af bensíni, 7.003 milljóna tekjum af olíugjaldi. Þá skili bifreiðagjöld ríkissjóði 5.420 milljóna króna tekjum og þungaskattur 1.527 milljónum en þessir póstar skiluðu 4.610 og 1.280 milljónum til ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvarpinu í fyrra.

Flutningsjöfnunargjald skili 50% tekjuauka

Flutningsjöfnunargjöld eiga að skila ríkissjóði 450 milljónum króna í tekjur á næsta ári, samkvæmt frumvarpinu sem fjármálaráðherra kynnti og lagði fram í gær. Í fjárlögum þessa árs var gert rað fyrir 300 milljónir króna tekjum af flutningsjöfnunargjaldi.

Skattalækkanir

Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 24.000 krónur á næsta ári, sem þýðir 18% hækkun skattleysismarka. Auk þess hefur persónuafslátturinn verið verðtryggður. Þá lækkar tekjuskattur á fyrirtæki úr 18% í 15% frá næstu áramótum.

Hvorttvegggja er samkvæmt lögum sem Alþingi hefur samþykkt og hið sama á við um afnám stimpilgjalda vegna kaupa á fyrstu íbúð.