Mikil aukning varð á útflutningsverðmæti landsins á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama fjórðung í fyrra. Þannig varð aukning í útflutningsverðmæti allra stoðanna þriggja; ferðaþjónustu, sjávarútvegi og stóriðju. Þetta kemur fram í hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Útflutningsverðmæti á fyrsta ársfjórðungi námu 355 milljörðum króna, en verðmætin námu um 227 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Því var um 57% verðmætaukning á milli ára, eða sem nemur 129 milljörðum króna.

Mesta aukningin varð í útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar, aukning upp á 44 milljarða eða 560%. Fóru verðmætin úr 7,9 milljörðum í 52,2 milljarða. Skýrist aukningin fyrst og fremst af mikilli fjölgun erlendra ferðamanna.

Næstmesta aukningin varð í útflutningsverðmæti stóriðju en þar var aukningin 42 milljarðar, fór úr 61,7 milljörðum í 103,7 milljarða. Verðmætaaukningin skýrist fyrst og fremst af sögulega mjög háu álverði.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst síðan um 20 milljarða, fór úr 66,1 milljörðum í 86,4 milljarða. Skýrist verðmæti sjávarafurða meðal annars af miklum loðnuveiðum.

Samanlögð aukning í útflutningsverðmæti útflutningsstoðanna þriggja nam því 107 milljörðum króna af samtals 129 milljarða aukningu. Útflutningsverðmæti stoðanna þriggja nam 242,3 milljörðum króna á ársfjórðungnum og hefur aldrei mælst hærra.