Heildarskuldir heimila með veði í fasteignum er 1.201 milljarður króna samkvæmt álagningarskrá ársins 2010. Þar af eru um 57% skuldanna (682 milljarðar króna) þannig að fasteignaskuldirnar eru lægri en fasteignamat þeirra eigna sem eru settar að veði fyrir þeim. Þar er því jákvæð eiginfjárstaða, þ.e. eignir eru hærri en skuldir.

Þessar tölur voru kynntar á fundi ríkisstjórnar, hagsmunaaðila og annarra um skuldavanda heimilanna sem haldinn var í síðustu viku. Tilgangurinn var að sýna fram á afleiðingar af 18% flatri niðurfærslu skulda.

Um 43% skuldanna (519 milljarðar króna) er skuldastaðan hærri en fasteignamatið. Samtals nema skuldir þeirra heimila sem þannig er ástatt um 125 milljarða króna umfram virði fasteignanna sem sett eru að veði.

Til viðbótar hafa verið tekin lán uppá 13,8 milljarða króna með veði í fasteignum en sem hafa verið notuð til annarra hluta en fasteignarkaupa. Heildarumfang fasteignarlána að þeim meðtöldum er, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands , alls 1.332,8 milljarðar króna. Um 83% af lánunum eru verðtryggð og um helmingur þeirra eru tekin hjá Íbúðalánasjóði. Tæplega 40% þeirra eru hjá bönkum og sparisjóðum og afgangurinn hjá lífeyrissjóðum.