Frá 1998 til 2007 hafa árleg útgjöld til heilbrigðismála aukist um 34 milljarða króna á föstu verði að því er kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins. Það jafngildir 57% raunaukningu.

Samkvæmt fjárlögum 2007 eru útgjöld til heilbrigðismála samtals 93,6 milljarðar króna, sem er um 25,5% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Langmest hefur aukningin orðið í útgjöldum öldrunar- og endurhæfingastofnana eða um 147% hækkun sem jafngildir 13 milljörðum króna. Einnig hefur orðið mikil hlutfallsleg hækkun í útgjöldum til almennrar heilsugæslu, sjúkraþjálfunar og annarra heilbrigðismála eða nálægt 100% aukning að því er kemur fram í vefritinu.

Þess má geta að tannlæknaþjónusta hefur aðeins hækkað um 17% á þessu tímabili og lyf og hjálpartæki hafa hækkað um 28%.