Nær 57% þeirra sem taka afstöðu í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup segjast styðja ríkisstjórnina. Helsta breytingin á fylgi flokka frá síðustu mælingu Gallup er sú að fylgi Vinstri grænna minnkar en um 12% segjast myndu kjósa flokkinn færu kosningar til Alþingis fram nú.

Litlar breytingar eru á fylgi annarra flokka eða á bilinu 0,4-1,1 prósentustig. Tæplega 24% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, nær 16% Samfylkinguna, liðlega 12% Pírata, tæplega 12% Viðreisn, hartnær 10% Miðflokkinn, nánast 8% Framsóknarflokkinn, tæplega 5% Flokk fólksins og næstum 3% Sósíalistaflokkinn.

Ríflega 11% svarenda kusu að taka ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp og liðlega 10% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa.