Hagnaður Iceland Seafood International nam 4,2 milljónum evra á fyrri árshelming 2019, sem nemur 577 milljónum króna, samanborið við 1,7 milljóna evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Tekjur námu 232 milljónum evra samanborið við 150 milljónir á sama tímabili í fyrra. Nettó framlegð á tímabilinu nam 20,5 milljónum evra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Eignir félagsins á lokadegi fyrri árshelmings námu 204 milljónum evra og eigið fé nam 62 milljónum evra.

Í tilkynningunni segir að vinna við skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar gangi vel og stefnt sé að hlutafjáraukningu samhliða skráningu á fjórða ársfjórðungi 2019.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International, segir í tilkynningunni að fyrirtækið sé stolt af rekstrarniðurstöðu fyrri helming ársins.