Samkvæmt skoðanakönnun Capacent-Gallup, sem gerð var fyrir Andríki, eru 58,3% þeirra sem afstöðu taka andvíg því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. 41,7% eru hlynnt aðild.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Andríki þar sem segir að spurt hafi verið: „Ert þú hlynnt/ur eða andvíg/ur inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Niðurstöður hafi verið þær, að „mjög hlynnt“ reyndust vera 17,1%, „frekar hlynnt“ 17,6%, „frekar andvíg“ voru 19,3% og „mjög andvíg“ 29,2%. „Hvorki né“ sögðust 16,9% vera. Sé þeim sem völdu „hvorki né“ sleppt séu niðurstöðurnar þær að 58,3% séu andvíg en 41,7% hlynnt.

Þá kom fram að meirihluti vildi að kosið yrði um hvort sótt yrði um aðild. Spurt var: Ert þú hlynnt/ur eða andvíg/ur því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Niðurstöður urðu þær, að því er segir í tilkynningunni, að að „mjög hlynnt“ reyndust vera 45,3%, „frekar hlynnt“ 15,6%, „frekar andvíg“ voru 11,3% og „mjög andvíg“ 17,9%. „Hvorki né“ sögðust 9,9% vera.

Ef þeim, sem völdu svarið „hvorki né“, er sleppt úr niðurstöðunum eru því 32,4% þeirrar skoðunar að ekki eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort „Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu“, en 67,6% vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um það mál, segir í tilkynningunni.

Könnunin var gerð dagana  16. til 27. júlí 2009 og voru 1273 í úrtakinu. Af þeim svöruðu 717 og svarhlutfall var því 56,3%.