Gildi lífeyrissjóður skilaði 5,8% raunávöxtun á síðasta ári samanborið við -0,9% árið 2016. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef sjóðsins.

Hrein eign Gildis í árslok var 517,3 milljarðar króna og hækkaði um 47,7 milljarða milli ára. Hrein eign samtryggingardeildar til greiðslu lífeyris nam 512,9 milljörðum og hækkaði um 45,3 milljarða. Hrein eign séreignadeildar var 4,5 milljarðar og hækkaði um 357 milljónir frá fyrra ári.

Iðgjöld námu rúmlega 23 milljörðum á árinu samanborið við 19,3 milljarða árið áður. Útgreiddur lífeyrir nam 15,4 milljörðum en var 14,3 milljarðar árið áður.

Gildi er einn stærsti lífeyrissjóður landsins. Alls greiddu 53.527 sjóðfélagar til Gildis á síðasta ári og 22.255 fengu greiddan lífeyri úr sjóðnum. Samtals eiga 226.014 sjóðfélagar réttindi hjá sjóðnum.

Góð afkoma er sögð skýrast helst af ávöxtun erlendra hlutabréfa, en einnig skiluðu innlend skuldabréf góðri afkomu. Vægi erlendra eigna jókst á árinu, úr 27,1% í 32,7%. Stefna sjóðsins er að auka vægi erlendra eigna enn frekar á komandi árum.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum lækkaði milli ára, úr 3,5% í 3,2%. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum nam 0,16% og stóð í stað.

Framkvæmdastjóri Gildis er Árni Guðmundsson. Í stjórn sjóðsins sitja þau Gylfi Gíslason (formaður), Harpa Ólafsdóttir (varaformaður), Áslaug Hulda Jónsdóttir, Freyja Önundardóttir, Guðmundur Ragnarsson, Kolbeinn Guðmundsson, Konráð Alfreðsson og Þórunn Liv Kvaran.