Ríflegur helmingur svarenda í könnun MMR um afstöðu til ákvörðunar forseta Íslands um Icesave lögin, eða 55,7% segjast styðja ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki nýju Icesave lögin og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MMR en þetta eru töluvert færri en sögðust því fylgjandi að forsetinn synjaði lögunum og vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslu í desember síðast liðnum (skv. könnun MMR fyrir Viðskiptablaðið) en þá voru 69,2% sem töldu að forsetinn ætti að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá kemur fram að litlu fleiri – eða 58,0% - segjast myndu kjósa á móti Icesave lögunum yrðu þau borin upp til kosninga í dag. Sem þýðir um leið að 42% svarenda segjast reiðubúin til að staðfesta lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá kemur einnig fram að áberandi andstaða er við ákvörðun forsetans um að staðfesta ekki nýju Icesave lögin meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, en 76,3% þeirra kváðust ekki styðja ákvörðun forsetans. Á hinn bóginn voru 80,6% þeirra sem sögðust ríkisstjórninni andvígir sem kváðust styðja ákvörðun forsetans.

Spurt var: Styður þú ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki nýju Icesave lögin og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu? og Ef kosið yrði um nýju Icesave lögin í dag, hvort myndir þú kjósa með eða á móti?

Svarmöguleikar voru sem að ofan greinir ásamt því sem svarendur gátu valið ‚veit ekki‘ eða ‚vil ekki svara‘. Af um 880 manns tóku 86,6% afstöðu til spurningar um ákvörðun forsetans og 72,2% tóku afstöðu til spurningar um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu.