Samkvæmt nýrri rannsókn NPD (National Purchase Diary)  jókst það að menn útveguðu sér tónlist án þess að borga hana í Bandaríkjunum á síðasta ári. Að sama skapi minnkaði sú tónlist sem keypt er. Þrátt fyrir að fleiri hafi borgað fyrir niðurhalaða tónlist, en sá markaðshluti tónlistar fór úr 7% í 10%, þá lækkaði hluti geisladiska úr 41% í 32%.

Útvarp hefur þó mesta hlustun ennþá, en geisladiskar eru í öðru sæti. Í þriðja sæti er svo að hlusta á tónlist í tölvu og fjórða sæti farandspilarar á borð við iPod. Samkvæmt frétt Guardian um málið hefur fjöldi þeirra sem nota skráarskiptaforrit (e. peer to peer) til að deila tónlist verið nokkuð stöðugur milli áranna 2006 og 2007, en hver notandi hlóð að meðaltali meiri tónlist niður á árinu 2007 en 2006.

Í fréttinni segir einnig að lögsóknir tónlistariðnaðarins hafi ekki náð að stoppa ólöglega skráardeilingu sem óx úr 14% í 19% hluta af þeirri tónlist sem hlustað er á í Bandaríkjunum.