Verðbólga á evrusvæðinu mældist 5,9% í febrúarmánuði síðastliðnum, samkvæmt bráðabirgðatölum Eurostat , en lokatölur verða birtar 17. mars næstkomandi. Aldrei hefur verðbólgan mælst meiri á evrusvæðinu, en hún var 5,1% í janúar og 5% í desember. Þess má geta að fyrir rúmu ári síðan, í janúar 2021, mældist hún undir einu prósenti.

Orkuverð leiðir áfram verðbólguna og mældist árshækkun orkuverðs 31,7% í febrúar samanborið við 28,6% árshækkun í janúar. Matur, áfengi og tóbak hækkaði um 4,1% í febrúar á milli ára.

Um 40% af innflutningi ESB ríkja á jarðgasi kemur frá Rússlandi. Fjórðungur af innflutningi ríkjanna á hráolíu kemur jafnframt frá Rússlandi. Sérfræðingar áætla að verð á gasi og á olíu muni halda áfram að hækka í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Jafnframt er áætlað að verðbólgan á evrusvæðinu mælist yfir 6% í mars.

Verðbólgan mælist almennt mest í Eystrasaltsríkjunum. Hún er 12,4% í Eistlandi, 13,9% í Litháen og 8,9% í Lettlandi. Á hinum endanum mældist 4,1% verðbólga í Frakklandi og 5,5% í Þýskalandi, en verðbólgumarkmið Evrópska Seðlabankans er 2,0%.