Á hvaða hátt mun internet hlutanna og 5G breyta daglegu lífi okkar? Geta innviðir landsins borið þá miklu byltingu sem boðað hefur verið að fylgi þessari nýju tækni?

Svör við þessum hugleiðingum er meðal þess sem verður á boðstólunum á morgunverðarfundi í höfuðstöðvum Arion banka þriðjudaginn 6. nóvember. Fyrirlesarar verða Daninn Lars Nielsen, einn helsti sérfræðingur Ericsson um 5G, og Halldór Sigurðsson sem er sérfræðingur alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company í fjarskiptamálum.

Við erum á þröskuldi nýs heims sem mun hvíla á 5G staðlinum og hefur verið kenndur við Internet of Things (IoT), eða internet hlutanna. Þar munu tæki tala saman og bregðast við fyrir tilstilli gervigreindar án atbeina mannsins.

Þegar 3G fjarskiptastaðallinn var innleiddur á sínum tíma töldu sérfræðingar að hann myndi fyrst og fremst nýtast til að streyma vídeófundum milli vinnustaða. Það sáu fáir fyrir sér að þessi nýi staðall þráðlausrar samskiptatækni myndi færa okkur á örfáum árum Spotify, Instagram, Snapchat, GPS í snjallsíma og ótal aðra samskipta og afþreyingarmöguleika.

Flutningshraðinn snarjókst með 4G staðlinum en 5G hefur alla burði til að valda miklu meiri breytingum en 3G gerði á sínum tíma. Við vitum nú þegar að 5G mun nýtast í tengslum við samgöngur, heilbrigðisþjónustu, í flóknum vöruhúsum og á iðnarsvæðum, en hvaða nýja tækni mun líta dagsins ljós? Hvernig verða snjallheimili framtíðarinnar?

Að loknum fyrirlestrunum tveimur verða panelumræður með þátttöku Halldórs, Helgu Valfells frá nýsköpunarsjóðnum Crowberry og Kristni Jóni Ólafssyni, sem stýrir Snjallaborgarverkefni Reykjavíkurborgar. Fundarstjóri er Jón Kaldal blaðamaður.