*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 1. september 2020 19:21

5G kerfin byrjuð að taka yfir

3G kerfi Nova verður tekið niður fyrir lok 2023 samhliða uppbyggingu 5G. Vodafone tók fyrsta 5G sendinn sinn í gagnið í dag.

Ritstjórn
Koma 5G býður upp á nýtingu aukins veruleika og sýndarveruleika, en Vodafone sem er með höfuðstöðvar á Suðurlandsbraut hefur sett upp sýningarrými rétt hjá höfuðstöðvum Nova í Lágmúla, þar sem Suðurlandsbraut mætir Laugavegi og Kringlumýrarbraut.
Aðsend mynd

Bæði Nova og Vodafone tóku í dag stór skref til virkjunar 5G fjarskiptakerfa sinna, sem bæði byggja á kínverskri Huawei tækni, sem stjórnvöld í Bandaríkjunum og víðar hafa sett fyrirvara við, eða alfarið bannað notkun þeirra vegna hættu á að slíkt geti undan þjóðaröryggi.

Þannig setti Vodafone formlega í loftið 5G fjarskiptakerfi sitt í dag, en fyrsti sendir félagsins er staðsettur við höfuðstöðvar Sýnar á Suðurlandsbraut. Sama dag tilkynnti Nova um að félagið hefði sett upp 5G senda í tveimur þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni, það er Hellu og Sandgerði, en áður hafði félagið þegar sett upp senda í Vestmanneyjum og á nokkrum svæðum í Reykjavík.

  • Höfuðstöðvar og verslun Nova er við Lágmúla, rétt fyrir ofan gatnamót Kringlumýrarbrautar við Suðurlandsbraut og Laugaveg

Ætla að ná til stærsta hluta landsins á næstu tveimur árum

Nova segist í sinni tilkynningu stefna að því að vera búið að 5G-væða stærstan hluta landsins á næstu tveimur árum, en félagið hafi byrjað að bjóða þjónustuna 5. maí síðastliðinn og þar með orðið fyrstir til að bjóða þjónustuna hér á landi.

Vodafone segir að á næstu misserum muni félagið kynna ýmsar lausnir byggðar á 5G, en framboðið á lausnum sem byggja á tækninni er sagt verða háð framboði á endabúnaði eins og 5G netbeinu og öðrum tækjum sem styðji við 5G kerfi. Þannig verði hægt að fá innsýn í það hvernig 5G styðji við sýndarveruleika (VR) og aukinn veruleika (AI) í verslun félagsins á Suðurlandsbraut á næstunni.

Vodafone segir jafnframt að það starfræki í dag öflugt 4G kerfi sem nái til 99,7% landsmanna og áfram verði unnið að uppbyggingu þess samhliða uppbyggingu 5G kerfisins. Nova ætlar samhliða uppbyggingu 5G kerfisins að taka niður 3G fjarskiptakerfi félagsins í áföngum þannig að síðasti sendirinn verði tekinn niður fyrir lok árs 2023.

  • Sýningarrými Vodafone vegna 5G er staðsett rétt þar sem Suðurlandsbraut mætir Laugavegi og Kringlumýrarbraut

Hundraðföldun á flutningsgetu frá 4G kerfinu

5G er fimmta kynslóð farsímakerfa sem býður upp á allt að 10x meiri hraða en 4G með meðalhraða upp á 150-200mb á sekúndu. 5G opnar á ýmsa möguleika, bæði fyrir heimili og fyrirtæki, frá spilun tölvuleikja í háskerpu til sjálfvirkni og snjall lausna af ýmsu tagi.

Sífellt fleiri tæki eru sögð vera á leiðinni inn á markaðinn sem styðja 5G hraða, bæði símar og önnur tæki, en 5G hraðinn er sagður jafnast á við öflugustu ljósleiðaratengingar þar sem hægt er að hlaða niður allt að 2,3 GB á sekúndu og svartíminn sé undir 10 millisekúndum

Ein helsta byltingin sem verður með tilkomu 5G kemur í gegnum sítengingu fleiri tækja en síma. Hraði og gagnaflutningsgeta kerfisins bjóði þannig upp á að meira og minna allt sem við notum og er í okkar nánasta umhverfi, fundarherbergið, úrið, hjólið, bíllinn og jafnvel lækningatækið sé sítengt við netið.

  • Frá kynningu Vodafone á 5G tækni sinni, en bæði félögin Vodafone og Nova nota senda frá kínveska félaginu Huawei

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone:

„Vodafone hefur verið leiðandi í IoT (Internet og Things) lausnum hér á landi og starfað með fjöldamörgum fyrirtækjum og sveitarfélögum á því sviði síðustu ár. 5G mun styrkja stöðu okkar enn frekar auk þess að opna á spennandi möguleika hvað varðar nettengingar fyrir heimilin í landinu. Áhrif 5G munu verða fyrir heimili og fyrirtæki svipuð og 4G var fyrir einstaklinga á sínum tíma.“  

Benedikt Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjarskipta hjá Nova:

„5G býður upp á mun meiri afköst en íbúar Hellu og Sandgerðis hafa þekkt hingað til, hvort sem er í gegnum síma eða jarðtengingar, auk þess sem 5G þjónusta mun veita íbúum sveitarfélagsins gífurlega hratt streymi, styttri svartíma, og niðurhal á miklum hraða,“ segir Benedikt.

„5G mun að jafnaði skila 150-200 Mb/s hraða á sekúndu og fara reglulega upp fyrir 1.000 Mb/s. Það þýðir að ef þú ert staddur á Hellu og með tæki sem styður 5G þá ertu líklega með eina hröðustu tengingu sem fyrirfinnst á Íslandi í dag. 5G hraði jafnast á við öflugustu ljósleiðaratengingar þar sem þú getur hlaðið niður allt að 2,3 GB á sekúndu og svartíminn er undir 10 millisekúndur.“

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova:

„Það er gaman að geta veitt íbúum Sandgerðis og Hellu aðgang að hraðasta netsambandi í boði er á markaðnum í dag. Það er sama hvar þú ert í dag, stórri borg eða smáum bæ, öflug fjarskipti og gott netsamband er lykilþörf í öllum rekstri. Hvort sem er í atvinnuuppbyggingu eða þjónustu við ferðmenn, innlenda sem erlenda. Við erum búin að finna fyrir miklu þakklæti frá íbúum og það er ljóst að við munum halda ótrauð áfram á þeirri vegferð að 5G-væða Ísland.“

Stikkorð: Vodafone Nova Huawei 5G