Nú þegar árið er á enda er ekki úr vegi að rifja upp mest lesnu fréttirnar á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, á árinu. Hér má finna stutta upprifjun um 6. til 10. mest lesnu erlendu fréttirnar.

10. 15 bestu háskólar í heimi

Harvard háskóli var besti háskóli heims samkvæmt lista hugveitunnar Center for World University Rankings. Háskóli Íslands var eini íslenski skólinn á listanum en hann var í 461. sæti.

9. Hvetur fólk til að sniðganga Nutella

Segolene Royal, umhverfisráðherra Frakklands, hvatti fólk til að hætta allri neyslu á Nutella súkkulaðikremi vegna þess að notast sé við pálmaolíu í framleiðslu þess með tilheyrandi náttúruspjöllum.

8. Rottur kostuðu Escobar yfir 200 milljarða á ári

Sagt var frá æviskeiði eiturlyfjabarónsins Pablo Escobar sem þénaði um það bil 420 milljónir dollara á viku með því að selja kókaín þegar mest lét. Var hann án alls vafa einn ríkasti eiturlyfjasali sögunnar.

7. Pútín fær tvær lúxusþotur - myndir

Rússneska ríkið festi kaup á tveimur lúxusflugvélum sem Vladimír Pútín forseti mun hafa til sinna einkanota. Annars vegar er um að ræða Ilyushin 96-300 vél, sem mun kosta um 3,75 milljarða rúbla, og hins vegar Ilyushin 96-300-PU(M1), sem mun kosta um 5,2 milljarða rúbla. Í íslenskum krónum nemur kostnaður ríkisins vegna vélanna tveggja um 23 milljörðum króna.

6. Pútín segir Isis fjármagnað frá tveimur löndum

Forseti Rússlands, Vladimir Pútin hefur deilt upplýsingum um hvaðan Isis fjármagnar starfsemi sína, en fjármögnun samtakanna virðist koma frá um 40 löndum, þ. á m. löndum innan G20 ríkjanna. Þetta kom fram í ræðu Putin á fundi G20 ríkjanna.